Íþróttafólk Reykjavíkur 2019

19. desember 2019

Tilkynnt var um val á Íþróttafólki Reykjavíkur í dag. Í tilefni dagsins bauð borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, til móttöku í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Allt frá árinu 1979 hefur stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valið Íþróttamann Reykjavíkur og var þetta því í 41.sinn sem hátíðin fór fram. Í ár voru í sjöunda sinn kjörin Íþróttakarl, Íþróttakona og Íþróttalið Reykjavíkur en í fyrsta sinn í ár voru tvö lið valin, eitt karlalið og eitt kvennalið.

Íþróttakarl Reykjavíkur 2019 er kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Glímufélaginu Ármanni. Júlían setti heimsmet í réttstöðulyftu og varð í þriðja sæti samanlagt á HM ásamt því að setja Íslandsmet.

Íþróttakona Reykjavíkur 2019 er knattspyrnukonan Margrét Lára Viðarsdóttir úr Knattspyrnufélaginu Val. Margrét Lára varð Íslandsmeistari með Val í sumar en hún hefur skorað 255 mörk í 180 leikjum í meistaraflokki ásamt því að leika 124 landsleiki og skora í þeim 79 mörk, fleiri en nokkur önnur Íslensk knattspyrnukona.

Íþróttalið Reykjavíkur í kvennaflokki 2019 er lið Vals í körfuknattleik kvenna sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu. Íþróttalið Reykjavíkur í karlaflokki 2019 er lið KR í körfuknattleik karla sem varð Íslandsmeistari á árinu.

Tólf einstaklingar og fimmtán lið frá tíu félögum voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2019 í dag. Íþróttafólkið og íþróttafélögin sem að liðunum standa fengu bæði áletraða verðlaunagripi og peningastyrk í verðlaun. Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur veittu styrkina.

Liðin sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2019:

  • Ármann – Íslands- og bikarmeistarar í sundknattleik
  • ÍR – Íslandsmeistarar í keilu
  • Júdófélag Reykjavíkur – Bikarmeistarar í júdó
  • Keilufélag Reykjavíkur – Bikarmeistarar í keilu
  • KR – Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla
  • KR – Íslandsmeistarar í körfuknattleik karla
  • Skylmingafélag Reykjavíkur – Íslandsmeistarar í skylmingum
  • TBR - Íslandsmeistarar í liðakeppni í badminton
  • Valur - Íslandsmeistarar í knattspyrnu kvenna
  • Valur – Íslands- og bikarmeistarar í handknattleik kvenna
  • Valur – Íslands- og bikarmeistarar í körfuknattleik kvenna
  • Víkingur – Bikarmeistarar karla í knattspyrnu
  • Víkingur - Íslands- og bikarmeistarar í borðtennis
  • Víkingur – Íslandsmeistarar í tennis
  • Þórshamar - Íslandsmeistarar karla í kata  

Einstaklingarnir sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2019:

  • Arnar Davíð Jónsson, Keilufélagi Reykjavíkur
  • Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsíþróttadeild Ármanns
  • Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
  • Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, frjálsíþróttadeild ÍR
  • Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Golfklúbbi Reykjavíkur
  • Helena Sverrisdóttir, körfuknattleiksdeild Vals
  • Íris Björk Símonardóttir, handknattleiksdeild Vals
  • Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraftlyftingadeild Ármanns
  • Kári Árnason, knattspyrnudeild Víkings
  • Margrét Lára Viðarsdóttir, knattspyrnudeild Vals
  • Óskar Örn Hauksson, knattspyrnudeild KR
  • Snorri Einarsson, Skíðagöngufélaginu Ulli

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson og formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, Ingvar Sverrisson, afhentu íþróttafólkinu og forsvarsmönnum íþróttafélaganna verðlaunin í dag. Við sama tækifæri var nýr söguvefur Íþróttabandalags Reykjavíkur kynntur í tilefni af 75 ára afmæli bandalagsins á árinu auk þess sem Íþróttabandalagið fékk viðurkenningu frá ÍSÍ sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.

Íþróttafólk Reykjavíkur 2019

Íþróttafólk Reykjavíkur 2019. Frá vinstri Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, íþróttakarl Reykjavíkur, Hallveig Jónsdótir og Guðbjörg Sverrisdóttir, körfuknattleiksliði Vals sem var valið kvennalið árins, Kristófer Acox og Páll Kolbeinsson, körfuknattleiksliði KR sem var valið karlalið árins, Margrét Lára Viðarsdóttir, íþróttakona Reykjavíkur

Íþróttalið ársins 2019

Íþróttalið ársins í Reykjavík 2019 ásamt borgarstjóra og formanni ÍBR. Frá vinstri Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, Jón Arnór Stefánsson, körfuknattleiksliði KR, Hallveig Jónsdótir og Guðbjörg Sverrisdóttir, körfuknattleiksliði Vals, Kristófer Acox, körfuknattleiksliði KR, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík.

Íþróttafólk Reykjavíkur 2019

Íþróttafólk Reykjavíkur 2019. Frá vinstri Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR, Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, Íþróttakarl Reykjavíkur 2019, Margrét Lára Viðarsdóttir, Íþróttakona Reykjavíkur 2019, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna