Lög

Lög Íþróttabandalags Reykjavíkur

1. grein

Íþróttabandalag Reykjavíkur, skammstafað ÍBR, er héraðssamband íþrótta- og ungmennafélaga í Reykjavík.  Það starfar samkvæmt lögum ÍSÍ, lögum UMFÍ og íþróttalögum.

2. grein

Hlutverk ÍBR er:

a)       Að gæta hagsmuna íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík og vera málsvari hennar gagnvart opinberum aðilum.

b)       Að stuðla að samstarfi íþróttafélaganna og veita þeim ráðgjöf.

c)        Að hafa frumkvæði um eflingu íþrótta- og félagsmálastarfs í Reykjavík.

d)       Að safna upplýsingum um starf og aðstæður íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík og kynna fyrir almenningi, opinberum aðilum og fleirum.

e)       Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum Reykjavíkur og vera þar fulltrúi ÍSÍ, en sérráð, sem stofnuð eru, fara með stjórn sérgreinamála sbr. 20.gr.

f)        Að standa fyrir viðburðum og aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraðinu.

g)       Að varðveita og skipta milli félaganna því fé, sem til þeirra hefur verið veitt.

h)       Að staðfesta lög/lagabreytingar aðildarfélaga til að þau öðlist gildi og halda utan um staðfest lög félaga.

i)        Að fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild.

j)        Að stuðla að uppbyggingu íþróttaaðstöðu í borginni í samstarfi við aðildarfélögin og Reykjavíkurborg.  Í því skyni getur ÍBR tekið að sér rekstur mannvirkja ef þurfa þykir.

3. grein

Öll félög í Reykjavík, sem hafa íþróttir og æskulýðsstarf á stefnuskrá sinni, eiga rétt á að gerast aðilar að ÍBR, enda fullnægi þau þeim skilyrðum, sem á hverjum tíma gilda um frjálsa íþróttastarfsemi.

4. grein

Óski félag að gerast aðili að ÍBR, skal það senda stjórn ÍBR umsókn sína ásamt lögum félagsins, skýrslu um stofndag þess og ár, stjórn þess og tölu félagsmanna.  Samhliða umsókn um aðild skal greiða inntökugjald sem stjórn ÍBR ákveður hverju sinni.  Uppfylli félagið inntökuskilyrði þessara laga, öðlast það réttindi hjá bandalaginu þegar stjórn ÍBR hefur samþykkt aðild þess. ÍBR tilkynnir ÍSÍ, UMFÍ og viðkomandi sérsambandi um stofnun nýrra félaga og deilda.

5. grein

Ef félag hefur á stefnuskrá sinni fleiri en eina íþróttagrein er félaginu heimilt að stofna deild um hverja þeirra, samanber lög viðkomandi félags.  Stofnun deildar skal tilkynna til framkvæmdastjórnar ÍBR og viðkomandi sérsambands.  Aðalstjórn félags fer með æðsta vald í félaginu milli aðalfunda og ber ábyrgð á starfi og fjárhag félagsins í heild.

6. grein

Þeir sem taka þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík skulu kappkosta að varðveita gott orðspor íþrótta, ímynd þeirra og trúverðugleika.  Í því skyni skulu þeir fylgja siðareglum ÍBR jafnframt stunda fagleg og heiðarleg vinnubrögð, vekja traust og virðingu og leitast við að styrkja samstarf og samstöðu.

7. grein   

Aðildarfélög skulu skila starfsskýrslum með félaga- og iðkendatölum og  tölum úr ársreikningum í gegnum félagakerfi íþróttahreyfingarinnar fyrir 15. apríl ár hvert.  Fyrir 1. júní ár hvert skulu þau félög sem þiggja styrki frá ÍBR skila ársskýrslu og ársreikningi, árituðum af skoðunarmönnum félags, til bandalagsins.  Berist þessar skýrslur ekki innan tilskilinna tímamarka er stjórn ÍBR heimilt að fresta samkvæmt eigin ákvörðun greiðslum á hlutdeild viðkomandi aðila í tekjum Íslenskrar getspár þar til skýrslur hafa borist.

8. grein     

Vanræki aðildarfélag að halda aðalfund á tilsettum tíma, skal framkvæmdastjórn ÍBR, ef þörf krefur, boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

Til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni skal ÍBR hafa fullan aðgang að bókhaldi og fylgiskjölum sambandsaðila sinna og ef ástæða þykir til getur framkvæmdastjórn tilnefnt sérstakan skoðunarmann reikninga fyrir aðildarfélag og fyrirskipað ítarlega rannsókn á fjárreiðum viðkomandi aðila. Aðildarfélag getur krafist þess að ÍBR feli löggiltum endurskoðanda að kanna bókhaldsgögnin. 

9. grein

Þjónustugjald aðildarfélaganna til ÍBR miðast við tölu gjaldskyldra félagsmanna, þ.e. 18 ára og eldri.  Þing ÍBR ákveður upphæð gjaldsins fyrir hvert ár.  Skýrslu- og reikningsár ÍBR miðast við almanaksárið.

10. grein

Hvert það aðildarfélag, sem ekki hefur haldið aðalfund og sent skýrslur og ársreikninga í samræmi við 7. gr. og ekki greitt þjónustugjald missir atkvæðisrétt sinn á næsta þingi ÍBR og missir einnig rétt til að tilnefna fulltrúa á Íþróttaþing.

Líði annað ár án þess að félag haldi aðalfund eða geri skil á skýrslum, ársreikningum og gjöldum, getur þing ÍBR tekið ákvörðun um, að félaginu skuli vikið úr bandalaginu.  Ákveði þing að víkja félagi úr bandalaginu skal tilkynna það til félagsins, ÍSÍ og viðkomandi sérsambands/sérsambanda.

          Að öðru leyti vísast til 6. kafla í lögum ÍSÍ.

11. grein 

Þing ÍBR skal háð annað hvert ár á tímabilinu 1. febrúar til 1. júlí í samræmi við þingsköp ÍBR.  Til þingsins skal boða með tveggja mánaða fyrirvara þá, sem rétt eiga á þingsetu, sbr. 10. gr.  Þá skal og senda bandalagsaðilum upplýsingar um fjölda fulltrúa þeirra á þinginu auk kjörbréfs.

Þau mál, sem aðilar ÍBR óska að verði á dagskrá, skulu berast stjórn íþróttabandalagsins í síðasta lagi fjórum vikum fyrir þingsetningu.

Allir fulltrúar skulu vera tilgreindir á kjörbréfi frá viðkomandi bandalagsaðila og skal kjörbréfum skilað inn til framkvæmdastjórnar eigi síðar en 2 vikum fyrir þing.

Eigi síðar en tveimur vikum fyrir þingbyrjun skal aðilum send dagskrá þingsins og ársskýrsla og tillögur sem borist hafa ásamt þeim tillögum sem framkvæmdarstjórn hyggst leggja fyrir þingið. 

Eigi síðar en viku fyrir þing skulu aðilum sendir endurskoðaðir ársreikningar. 

Þing ÍBR er lögmætt, ef löglega hefur verið til þess boðað.

Á þingi skal kjósa 3 manna kjörnefnd og einn til vara og starfar hún til loka næsta þings. Tilkynningar um framboð til formanns og stjórnar Íþróttabandalags Reykjavíkur skulu berast kjörnefnd eigi síðar en þremur vikum fyrir þing. Er þá framboðsfrestur útrunninn. Hafi ekki nægilegur fjöldi gefið kost á sér á þeim tíma, er kjörnefnd heimilt að framlengja framboðsfrestinn enda sé það tryggilega tilkynnt bandalagsaðilum. 

Hafi, þrátt fyrir það, eigi borist næg framboð skal kjörnefnd hlutast til um að afla nauðsynlegs fjölda framboða.

          Kjörnefnd er eftirlitsaðili með kosningum.

          Framboði til stjórnar eða formanns skal fylgja yfirlýsing um stuðning við framboð frá       félagi eða félögum með a.m.k. 5 atkvæði.

12. grein

Hvert aðildarfélag hefur rétt til að senda fulltrúa á þing. Það skal hafa atkvæðisrétt miðað við fjölda félagsmanna á síðastliðinu starfsári.  Hver þingfulltrúi má aðeins fara með atkvæði fyrir eitt félag. Hver þingfulltrúi getur að hámarki farið með tvö atkvæði samkvæmt eftirfarandi:

  1        -       200  félagsmenn hljóti     1 atkvæði og 1 fulltrúa

201       -       400       “                 “    2 atkvæði og 1 fulltrúa

401       -       600       “                 “    3 atkvæði og 2 fulltrúa

601       -       800       “                 “    4 atkvæði og 2 fulltrúa

801       -       1000     “                 “    5 atkvæði og 3 fulltrúa

1001     -       1200     “                 “    6 atkvæði og 3 fulltrúa

1201     -       1400     “                 “    7 atkvæði og 4 fulltrúa

1401     -       1600     “                 “    8 atkvæði og 4 fulltrúa

1601     -       og yfir   “                 “    9 atkvæði og 5 fulltrúa

Félög með fleiri en einn fulltrúa skulu tilnefna sem næst jafnmargar konur og karla til þingsetu.

13. grein

Á þingi ÍBR eiga sæti með málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétti fulltrúar þeir, sem aðildarfélög ÍBR hafa kjörið til þings skv. 12. gr. sbr. þó 10. gr., svo og einn fulltrúi frá hverju sérráði á bandalagssvæðinu sbr. þó 20. gr. Að auki hafa eftirtaldir aðilar rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétt:  Framkvæmdastjórn ÍBR, framkvæmdastjórn ÍSÍ, stjórn UMFÍ, fulltrúi ráðuneytis íþróttamála og fulltrúi Reykjavíkurborgar.

14. grein 

Dagskrá þingsins skal vera þessi:

                     1.        Þingsetning

2.        Kosning fyrsta og annars þingforseta og fyrsta og annars þingritara.

3.        Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.

4.        Lagt fram og rætt:  Skýrsla stjórnar og ársreikningar og atkvæði greidd um þá.                    

5.        Fyrri umræða um fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og næsta árs og þjónustugjald félaganna.

6.        Fyrri umræða um lagabreytingar, sem liggja fyrir.  Laganefnd kjörin til að athuga  breytingar fyrir aðra umræðu.

                     7.        Umræða um stefnumótun og starfsáætlun ÍBR.

8.        Ræddar tillögur og mál, sem liggja fyrir.

9.        Kosnar tvær 5 manna þingnefndir: fjárhagsnefnd og allsherjarnefnd.

ÞINGHLÉ

10.      Álit nefnda, umræður og atkvæðagreiðsla.

11.      a)   Kosinn formaður ÍBR.

                              b)   Kosnir þrír stjórnarmenn af sex úr fráfarandi stjórn.

                              c)   Kosnir þrír stjórnarmenn.

                              d)   Kosnir tveir varamenn.

                              e)   Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og tveir til vara.

                              f)    Kosin þriggja manna kjörnefnd og einn til vara sbr. 8. grein.

                              g)   Kosnar fastanefndir, er þingið ákveður.

12.      Önnur mál.

13.      Þingslit.

Þingið skal móta stefnu ÍBR, a.m.k. til næstu tveggja ára með því að ákveða þá málaflokka, sem leggja ber áherslu á í starfi framkvæmdastjórnar.  Öllum stærri málum, sem þingið fær til meðferðar, skal vísað til nefnda og starfa þær á milli funda.  Allar kosningar skulu vera bundnar og skriflegar, séu fleiri tilnefndir en kjósa skal.  Verði atkvæði jöfn,  ræður hlutkesti.

Komi til þess að fleiri séu í kjöri en sæti eru fyrir skulu þeir eiga þess kost að bjóða sig fram til annars embættis ef þeir bíða lægri hlut í kosningu.

Í sambandi við þingið má flytja erindi og hafa íþróttasýningar, eftir því sem tími er til.

15. grein

Í málum, sem tilkynnt hafa verið í þingboði, hvort sem er á reglulegu þingi eða aukaþingi, ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum.  Til að taka megi til meðferðar á þinginu mál, sem ekki var getið í fundarboði, þarf það samþykki 2/3 greiddra atkvæða,  og 4/5 greiddra atkvæða til að samþykkja þau.  Til lagabreytinga þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

16. grein

Framkvæmdastjórn útdeilir fulltrúum á Íþróttaþing.

Á héraðssambandið rétt á fulltrúafjölda, sem miðast við hlutfall fjölda félagsmanna ÍBR af heildarfjölda félagsmanna ÍSÍ síðasta starfsár fyrir Íþróttaþing.

1)       Séu félagsmenn ÍBR færri en 10.000, skal fyrst koma einn fulltrúi frá framkvæmdastjórn, tveir, ef félagsmenn eru frá 10.000 til 19.999, þrír, ef félagsmenn eru frá 20.000 til 29.999 og fjórir, ef félagsmenn eru 30.000 eða fleiri.  Á sama hátt skulu koma jafnmargir varamenn.

2)       Hverfafélögin skulu síðan tilnefna einn aðalfulltrúa hvert.

3)       Íþróttafélögin skulu síðan tilnefna aðalfulltrúa í hlutfalli við fjölda þingfulltrúa sinna á þingi ÍBR uns tilskyldum fulltrúafjölda er náð, og skal miðað við reglur um hlutfallskosningar.

4)       Varafulltrúar á Íþróttaþing, jafnmargir aðalfulltrúum, skulu valdir þannig:

a)       Fyrst komi einn varafulltrúi frá hverju aðildarfélagi ÍBR sem hefur tilnefnt aðalfulltrúa án þess að fá fulltrúa kjörinn í röð sem ræðst af fjölda þingfulltrúa á þingi ÍBR.

b)       Þá varafulltrúa sem þá á eftir, skal velja eftir sömu reglu og aðalfulltrúar eru valdir.

Berist ekki tilnefningar frá einhverjum aðildarfélögum, skal stjórn ÍBR velja fulltrúa til þess að fylla tölu fulltrúa bandalagsins á íþróttaþing.

Framkvæmdastjórn skal tilnefna fulltrúa á sambandsþing UMFÍ.

Þau félög sem ekki senda fulltrúa á þing ÍBR, fyrirgera rétti sínum til að senda fulltrúa á Íþróttaþing og sambandsþing UMFÍ.

17. grein

Samþykki stjórnir 2/3 hluta aðildarfélaganna tilmæli um að aukaþing verði haldið skal verða við því.  Einnig hefur stjórn ÍBR heimild til að boða til aukaþings.  Um seturétt á aukaþingi fer skv. 11. grein en allir boðunarfrestir og skilafrestir skulu vera helmingi styttri en þegar um hefðbundið þing er að ræða.

Tilhögun aukaþings skal vera þessi:

  1. Þingsetning.
  2. Kosin þriggja manna kjörbréfanefnd.
  3. Kosnir þingforsetar og þingritarar.
  4. Tekin til meðferðar þau mál, er gefið hafa tilefni til aukaþingsins og tilkynnt voru með þingboðinu.
  5. Önnur mál, sem upp kunna að vera borin, ef þingið leyfir að taka þau fyrir, sbr. 15. gr.
  6. Þingslit.

18. grein

Á milli þinga stjórnar bandalaginu 7 manna framkvæmdastjórn, sem kosin er til tveggja ára í senn.  Skal kjósa fyrst formann, en hina 6 í tvennu lagi, þannig að fæst þrír úr fráfarandi stjórn verði endurkosnir.  Í framkvæmdastjórn má ekki kjósa þrjá eða fleiri menn frá sama aðildarfélagi.  Formenn og framkvæmdastjórar einstakra félaga, sérráða, sérsambanda eða annarra íþróttahéraða geta ekki setið í framkvæmdastjórn.

Varamenn taka sæti í framkvæmdastjórn í þeirri röð sem atkvæðamagn segir til um.  Verði varamenn sjálfkjörnir skal varpa hlutkesti um röð þeirra.

Framkvæmdastjórn skiptir sjálf með sér verkum.  Formannafundur skal haldinn það árið, sem þing er ekki haldið og gerir þá framkvæmdastjórn grein fyrir störfum sínum frá síðasta þingi og leggur fram ársreikninga bandalagsins fyrir næsta reikningsár á undan.  Til formannafundar eru boðaðir formenn allra aðildarfélaga ÍBR auk framkvæmdastjóra.

19. grein

Stjórn ÍBR skal sjá um allar framkvæmdir bandalagsins og vinna að málum þess s.s. rekstur ÍBR viðburða og Skautahallarinnar í Laugardal.  Stjórninni er heimilt að skipa nefndir innan eða utan sinna vébanda til að sjá um að framkvæma viss mál bandalagsins.  Formaður skal kalla saman fundi framkvæmdastjórnar eftir því sem þurfa þykir.

20. grein

Stofna má sérráð sem fjallar um sérfræðileg málefni íþróttagreinar innan ÍBR.  Um starfsemi sérráðs skal gera starfsreglur sem samþykktar eru af framkvæmdastjórn ÍBR og kynntar viðkomandi sérsambandi.  Endanleg niðurröðun móta á bandalagssvæðinu og val keppenda á utanhéraðsmót er háð samþykki framkvæmdastjórnar ÍBR, ef um er að ræða lið, sem keppir í nafni bandalagsins eða Reykjavíkur. Sérráð lúta fjárhagslegri yfirstjórn ÍBR.  Fyrir 15. apríl ár hvert skal sérráð senda til ÍBR skýrslu um starfsemi síðasta árs.  Hafi skýrslur þessar ekki borist fyrir 1. júní missir ráðið rétt sinn til að tilnefna fulltrúa á þing ÍBR.

21. grein

Stjórn ÍBR skal veita viðtöku og geyma í skjalasafni sínu skýrslur um íþróttamót, sem haldin eru í héraðinu, myndum og öðrum sögulegum heimildum um íþróttastarf í Reykjavík.

22. grein

Ef ágreiningur rís innan stjórnar ÍBR eða meðal bandalagsaðila  um réttindi félaga eða um skilning á þessum lögum skal leggja málið fyrir dómstól ÍSÍ til úrskurðar.

23. grein

Verði ÍBR lagt niður skiptast eigur þess milli aðildarfélaga eftir stærð þeirra, 34% eftir         fjölda deilda, 33% eftir fjölda iðkenda og 33% eftir fjölda félagsmanna.

24. grein

Lög þessi öðlast gildi, þegar framkvæmdastjórn ÍSÍ hefur staðfest þau.

Samþykkt á þingi ÍBR  2. október 2021

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna