Sumarið 1954 var Halldór Pétursson listteiknari fenginn til að gera tillögur að merki fyrir ÍBR í tilefni 10 ára afmælis bandalagsins þann 31. ágúst. Skilaði hann nokkrum tillögum og varð merki þar sem styttan af Ingólfi Arnarsyni er í forgrunni fyrir valinu. Jafnframt var merkið útfært sem heiðursmerki, gullstjarna ÍBR, er ákveðið var að taka upp heiðranir fyrir störf að íþróttamálum í Reykjavík. Stjarna gerð úr silfri, en á henni miðri er mynd Ingólfs Arnarsonar úr gulli. Gullmerki ÍBR var úthlutað í fyrsta skipti á 45 ára afmæli ÍBR hinn 31. ágúst 1989.
Heiðursviðurkenningar ÍBR eru í tveimur gráðum: Gullstjarna ÍBR og Gullmerki ÍBR
Framkvæmdastjórn ÍBR er heimilt að heiðra forystumenn eða íþróttamenn, þegar ástæða þykir til, en þó má ekki veita sama manninum nema einu sinni hverja gráðu.
Gullstjörnu ÍBR má sæma þann, sem unnið hefur um langt árabil að stjórnar- eða skipulagsmálum reykvískra íþróttasamtaka í heild eða einstakra íþróttafélaga innan bandalagsins, af einstökum dugnaði og kostgæfni. Heiðurskjal, undirritað af framkvæmdastjórn ÍBR, skal fylgja viðurkenningunni.
Gullmerki ÍBR má veita þeim, sem innt af hendi hafa langvarandi og mikil störf í þágu reykvískra samtaka eða íþróttafélaga innan ÍBR. Einnig reykvískum íþróttamönnum, sem vinna mikil afrek í alþjóðlegum íþróttamótum.
- Tillaga um veitingu viðurkenningar ÍBR skal lögð fram skriflega á fundi framkvæmdastjórnar ÍBR.
- Til þess að veita heiðursviðurkenningu ÍBR þarf samþykki ¾ framkvæmdastjórnar ÍBR.
- Heiðursviðurkenningar skulu númeraðar og skráðar í sérstaka bók.