Hreyfivika 23.-29.maí

18. maí 2016

Teiknuð mynd af krökkum í snú snú.

Hreyfivika UMFÍ er árleg lýðheilsuherferð og hefur það að markmiði að kynna kosti þess að taka þátt í hreyfingu og íþróttum. Hreyfivikan eða Moveweek fer fram víða um Evrópu dagana 23.maí til 29.maí í ár. UMFÍ hvetur alla til að taka þátt í vikunni og ekki síður hvetja aðra til að vera með.

Íþróttabandalagi Reykjavíkur hefur ákveðið að hvetja grunnskólanemendur til hreyfingar í Hreyfivikunni með því að senda til þeirra snú snú bönd. Snú snú böndin eiga að berast til skólanna 19. og 20.maí. Vonir eru bundnar við að kennarar og aðrir starfsmenn skólanna rifji upp gamla og góða snú snú leiki með börnunum og allir verði hoppandi hressir í frímínútum þessa vikuna.

Þeir sem vilja búa til viðburði og taka þátt kallast boðberar hreyfingar í Hreyfiviku UMFÍ. Viðburðirnir geta verið allt frá göngutúr með samstarfsfólki í vinnunni til opinna íþróttaæfinga. Fleiri og fleiri hafa tekið þátt í Hreyfiviku UMFÍ og voru þátttakendur um 40.000 í fyrra. Ef þið skráið ykkur sem boðbera hreyfingar í Hreyfiviku UMFÍ þá farið þið í pott og getið átt von á því að vinna ýmsa flotta vinninga. Sjá nánar á vef verkefnisins http://iceland.moveweek.eu/

Samstarfsaðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna