Íþróttafólk Reykjavíkur heiðrað við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur
Athöfn íþróttafólks Reykjavíkur fór fram við hátíðlegar aðstæður í Ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld, þar sem framúrskarandi árangur reykvískra íþróttamanna og liða á árinu 2025 var heiðraður. Fjölmenni var viðstatt þegar verðlaun voru veitt í helstu flokkum og ljóst að árið hefur verið einstaklega árangursríkt í íþróttalífi borgarinnar.
Eygló Fanndal Sturludóttir íþróttastjarna Reykjavíkur 2025
Eygló átti stórkostlegt ár þar sem Evrópumeistaratitill fullorðinna er sá árangur sem hæst ber að nefna. Þar kom hún, sá og sigraði og fyrir þann árangur var hún líka valin önnur besta er kemur að heildarstigum óháð þyngdarflokki. Hún er fyrsti íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í ólympískum lyftingum fullorðinna. Fyrr á árinu varð hún Íslandsmeistari í 5. sinn í röð og svo tryggði hún sér einnig 1. sæti á Smáþjóðamótinu.
Við óskum Eygló til hamingju með árangurinn sem og öllum þeim sem tilnefnd voru.
Handboltalið Vals íþróttalið Reykjavíkur 2025
Valur átti frábært tímabil og eru Íslandsmeistarar 2025. Hápunktur tímabilsins verður að teljast frábær sigur Vals í Evrópubikarkeppni kvenna en þar sigraði liðið sterkt lið Porrino frá Spáni í úrslitum keppninnar. Valur er fyrsta íslenska kvennaliðið í handknattleik til að vinna Evróputitil.
Við óskum Val og öllum liðunum til hamingju með árangurinn.
Ljósmyndir: Jón Aðalsteinn








