International Children’s Games
ÍBR sendi 18 keppendur og 4 þjálfara til leiks á Alþjóðaleika ungmenna (International Children’s Games) sem haldið var í Tallinn, Eistlandi 3.-8. Ágúst.
Fyrir hönd Reykjavíkur sendi ÍBR keppendur í fjórar keppnisgreinar. Keppnisgreinarnar sem tekið var þátt í að þessu sinni voru knattspyrna, sund, frjálsíþróttir og júdó.
Ferðin í heild sinni gekk vel hjá öllum hópnum og voru allir þátttakendur sinni borg til sóma innan sem utan vallar, frábærir fulltrúar Reykjavíkur. Margir góðir sigrar náðust og flestir þátttakendur náðu bætingum í sínum greinum.
Knattspyrna
Til keppni sendum við kvennalið í knattspyrnu þar sem stúlkurnar okkar sigruðu alla leikina sína í riðlinum og fóru því beint í undanúrslit mótsins þar sem liðið gerði sér lítið fyrir og sigraði sterkt lið Bangkok. Við tók úrslitaleikurinn sjálfur þar sem okkar konur þurftu að lúta í lægra haldi fyrir sterku liði Bratislava.
Hér að neðan má sjá úrslit liðsins í mótinu ásamt markaskorurum:
Reykjavík-Tallinn 6-4
Mörk Reykjavíkur: Lísa Ingólfsdóttir 3, Sara Snædahl Brynjarsdóttir 2 og María Kristín Magnúsdóttir.
Reykjavík-Coventry 7-0
Mörk Reykjavíkur: Sara Snædahl Brynjarsdóttir 4, Helena Hákonardóttir 2 og Margrét Lóa Hilmarsdóttir.
Reykjavík-Gytheo 14-0
Mörk Reykjavíkur: Lísa Ingólfsdóttir 4, Helena Fönn Hákonardóttir 3, Karítas Þyrí Jakobsdóttir 2, Sara Snædahl Brynjarsdóttir 2, Margrét Lóa Hilmarsdóttir, Kara Guðmundsdóttir og Ásta Sylvía Jóhannsdóttir.
Reykjavík-Bangkok 6-1
Mörk Reykjavíkur: Kara Guðmundsdóttir 4 og Sara Snædahl Brynjarsdóttir 2.
Reykjavík-Bratislava 2-3
Mörk Reykjavíkur: Sara Snædahl Brynjarsdóttir og Kara Guðmundsdóttir.
Frábær árangur hjá stúlkunum en það sem stóð upp úr var hversu sterk liðsheild skapaðist á skömmum tíma hjá okkar liði og það er ljóst að allar hafa þær eignast nýja vini og myndað sterk tengsl.
Frjálsíþróttir
Sigurður Ari Orrason keppti í langstökki og 100m hlaupi. Hann komst í úrslit í 100m og bætti sinn persónulega árangur þar.
Bryndís María Jónsdóttir keppti í 80m grindahlaupi og langstökki. Hún komst í úrslit í báðum greinum.
Matthías Derek Kristjánsson keppti í 100m grindahlaupi og langstökki. Hann komst í úrslit í 100m grindahlaupi og bætti sinn besta árangur í báðum greinum.
Emilía Ólöf Jakobsdóttir keppti í 100m og 400m hlaupi. Hún komst í undanúrslit í 100m hlaupi og úrslit í 400m. Emilía bætti sinn besta árangur í báðum greinum.
Saman kepptu þau í blönduðu boðhlaupi 4x100m en gerðu því miður ógilt.
Sund
Fyrir hönd Reykjavíkur kepptu 4 keppendur í sundi á leikunum í Tallinn í ár. Þau voru Álfrún Lóa Jónsdóttir, Bjarndís Olga Hansen, Stefán Hagalín Árnason og Timotei Roland Randhawa. Álfrún keppti í 50, 100, 200 metra bringusundi og 200 metra skriðsundi. Bjarndís keppti í 100 og 200 metra baksundi, 200 m skriðsundi og 200 m fjórsundi. Hún komst í úrslit í 200 metra baksundi og endaði í 8. sæti. Stefán keppti í 50, 100, 200 og 400 metra skriðsundi. Hann bætti sinn persónulega tíma í 50 metra skriðsundi. Timotei keppti í 50 og 100 metra baksundi og 50 og 100 metra skriðsundi. Hann bætti sína persónulegu bestu tíma í bæði 100 metra baksundi og skriðsundi. Þau kepptu svo saman í blönduðu kynjaboðsundi í 4 x 100 metra fjórsundi og stóðu sig vel. Þau voru öll að keppa á sínu fyrsta fjölmenna alþjóðlega móti, stóðu sig vel og fengu dýrmæta og skemmtilega reynslu og minningar með sér heim aftur til Reykjavíkur.
Júdó
Jóhann Áki Jónsson náði góðum árangri á mótinu í júdó og hreppti silfur í sínum þyngdarflokki.
Keppendur á mótinu voru eftirfarandi:
· Ásta Sylvía Jóhannsdóttir (Knattspyrna) – Víkingur
· Helena Fönn Hákonardóttir (Knattspyrna) – Fjölnir
· Kara Guðmundsdóttir (Knattspyrna) – KR
· Karítas Þyrí Jakobsdóttir (Knattspyrna) – Fylkir
· Lísa Ingólfsdóttir (Knattspyrna) – Valur
· Margrét Lóa Hilmarsdóttir (Knattspyrna) – Þróttur
· María Kristín Magnúsdóttir (Knattspyrna) – Fram
· Sara Snædahl Brynjarsdóttir (Knattspyrna) – Þróttur
· Bryndís María Jónsdóttir (Frjálsíþróttir) – ÍR
· Emilía Ólöf Jakobsdóttir (Frjálsíþróttir) – ÍR
· Matthías Derek Kristjánsson (Frjálsíþróttir) – ÍR
· Sigurður Ari Orrason (Frjálsíþróttir) – ÍR
· Álfrún Lóa Jónsdóttir (Sund) – Ármann
· Bjarndís Olga Hansen (Sund) – Ægi
· Stefán Hagalín Árnason (Sund) – Ármann
· Timotei Roland Randhawa (Sund) – KR
· Bjarnsteinn Örn Hilmarsson (Júdó) – JR
· Jóhann Áki Jónsson (Júdó) – JR
Þjálfarar og farastjórar á mótinu voru eftirfarandi:
· Darri McMahon (Fararstjóri)
· Margrét Elíasdóttir (Fararstjóri)
· Jakob Leó Bjarnason (Knattspyrna)
· Bjarni Anton Theódórsson (Frjálsíþróttir)
· Hjalti Guðmundsson (Sund)
· Zaza Simonishvili (Júdó)