Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2025 fór fram í dag. Aðalstyrktaraðili hlaupsins, Íslandsbanki, bauð til hátíðarinnar í höfuðstöðvum sínum í Norðurturni. Á uppskeruhátíðinni komu saman fulltrúar góðgerðafélaga, hlauparar, starfsmenn og stuðningsaðilar til að fagna góðum árangri áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fram fór á vefnum hlaupastyrkur.is.
Í ár söfnuðu hlauparar 326.709.581 krónum. Heildarupphæð áheita sem hafa safnast í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er nú komin yfir 2 milljarða. Þeir hlauparar sem söfnuðu mest fengu viðurkenningu á áheitahátíðinni í dag.
Magnús Helgason safnaði mest allra einstaklinga, 3.419.399 fyrir Styrktarfélag Magnúsar Mána. Mari Jaersk safnaði næst mest, 2.073.000 krónur fyrir Krýsuvíkursamtökin. Birna Kristín Hrafnsdóttir safnaði þriðja mest, 1.608.000 krónum fyrir Styrktarsjóður Grétars og fjölskyldu.
Sá hlaupahópur sem safnaði mestu var HHHC Boss en þeir söfnuðu 12.906.317 krónur fyrir Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Sá hlaupahópur sem safnaði næst mest var Hlaupið fyrir Píeta, fyrir Helgu eða 2.060.500 krónur fyrir Píeta samtökin, sjálfsvígs- og sjálfsskaða forvarnir, meðferð og hjálparlína og sá hópur sem safnaði þriðja mest var Komið gott eða 2.006.000 fyrir Hollvinir Grensásdeildar.
Yfir 170 góðgerðarfélög söfnuðu áheitum í ár, en áheitin hafa verið greidd til góðgerðafélaganna. Öll áheit sem bárust fara beint til félaganna því Íslandsbanki greiðir allan kostnað við söfnunina. Þau félög sem fengu mestu í ár eru Ljósið - Endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda safnaði mest allra góðgerðafélaga eða 31.869.657 krónur, Píeta samtökin, sjálfsvígs- og sjálfsskaða forvarnir, meðferð og hjálparlína safnaði 20.215.122 krónur og Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur safnaði 19.972.063 krónur.











