Metþátttaka í Reykjavíkurmaraþoni Íslandbanka 2025!

25. ágúst 2025

Met aðsókn í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka
Metaðsókn var í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem fór fram síðastliðinn laugardag. Skráðir þátttakendur voru 17.786, sem eru rúmlega 3.000 fleiri en á síðasta ári. Stemningin í miðbænum var gríðarleg og þrátt fyrir að veðrið hafi skipst á skini og skúrum, þá létu glaðir hlauparar rigninguna ekki á sig fá. Áhorfendur fögnuðu vel og mikið fyrir þreytta hlaupara sem komu í mark.

Ræsingarnar - nýtt fyrirkomulag
Í ár var tekið upp nýtt fyrirkomulag á ræsingum. Hnökrar komu upp í fyrri ræsingum dagsins í heilu og hálfu maraþoni vegna margmennis. Ferlið við að fylla upp í rás­hólf gekk ekki alveg eins og vonast var til og skapaðist því nokkur óvissa hjá þátttakendum um staðsetningu sína. Langflestir voru þó á réttum stað, en fyrirkomulagið var kynnt rækilega í aðdraganda hlaupsins í póstum til þátttakenda og á samfélagsmiðlum. Leitað verður leiða til að koma þeim skilaboðum enn betur á framfæri á næsta ári.

Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur þegar tekið málið til skoðunar og unnið verður að úrbótum fyrir næsta ár en það má alltaf búast við því að hnökrar komi upp þegar nýtt fyrirkomulag er tekið í notkun.

Söfnunarmet slegið
Söfnunarmet var einnig slegið síðastliðinn föstudag á hlaupastyrkur.is. Þegar þetta er ritað hafa safnast yfir 321 milljónir til góðra málefna, sem er frábær árangur. Heildarsöfnun á hlaupastyrkur.is er þar með komin yfir 2 milljarða króna frá því söfnunin hófst árið 2006. Enn er hægt að heita á góð málefni fram á miðnætti, mánudaginn 25. ágúst.

Varðandi einstök atvik á braut

Í tengslum við umræðu um atvik á braut höfum við kynnt okkur málið. Við höfum upplýsingar um tvö möguleg atvik þar sem hlauparar fóru út af braut. Í öðru atvikinu hafi hlaupari farið út af braut þar sem brautarvörður var í umferðagæslu. Fyrir framan fremstu hlaupara eru undanfarar á hjólum sem vísa leiðina og þykir okkur mjög leiðinlegt að þetta atvik hafi komið upp.

Íþróttabandalag Reykjavíkur þakkar öllum þátttakendum, samstarfsaðilum, áhorfendum, starfsfólki, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem tóku þátt í að skapa þennan frábæra viðburð.

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna