Fjölmennasta Laugavegshlaupið frá upphafi fer fram þann 12. júlí

7. ágúst 2025

Laugardaginn 12. júlí fer Laugavegshlaupið 2025 fram í 28. sinn, og í ár verður um sannkallað methlaup að ræða. Yfir 800 keppendur eru skráðir til leiks, en það er fleiri en nokkru sinni fyrr og úrval sterkustu utanvegahlaupara landsins mætir til að etja kappi á þessari sígildu 55 km leið frá Landmannalaugum til Þórsmerkur.

Laugavegshlaupið er þekkt sem árshátíð utanvegahlaupara á Íslandi og dregur ár hvert að sér þátttakendur víðsvegar að, bæði hér heiman frá og erlendis en í ár eru hlauparar frá 30 löndum sem taka þátt. Samkeppnin í ár verður einstaklega hörð, þar sem margir af fremstu hlaupurum Íslands taka þátt.

Meðal keppenda í ár eru: Þorbergur Ingi Jónsson sem á 4 af 10 bestu tímum í sögu hlaupsins, þar á meðal besta tímann frá upphafi, þegar hann sigraði hlaupið árið 2015 á tímanum 03:59:13. Þorsteinn Roy Jóhannsson sem sigraði hlaupið á síðasta ári snýr aftur og það má búast við æsispennandi keppni milli Þorsteins og Þorbergs Inga.

Ofurhlauparinn og sigurvegari í kvennaflokki síðastliðin fjögur ár Andrea Kolbeinsdóttir mun reyna að verja titilinn en hún mun fá góða keppni frá sterkum hlaupurum líkt og Íris Anna Skúladóttir og Halldóra Huld Ingvadóttir sem hafa náð góðum árangri í hlaupinu síðastliðin ár.  

Fyrir utan sterka íslenska keppendur taka einnig þátt öflugir erlendir hlauparar sem auka alþjóðlegt vægi hlaupsins.

„Við sjáum ótrúlega mikinn áhuga á hlaupinu í ár. Laugavegurinn er orðinn heimsþekktur sem hlaupaleið, og það er virkilega ánægjulegt að fá svona fjölbreyttan og öflugan hóp keppenda,“ segir Ragna Björg Kristjánsdóttir, hlaupastýra Laugavegshlaupsins..

Laugavegshlaupið er ekki aðeins keppni heldur einstök upplifun. Hlauparar fara í gegnum eitt fjölbreyttasta landslag Íslands, frá hverasvæðum í Landmannalaugum, yfir svarta sandana við Emstrur og að grósku Þórsmerkur  á einni og sömu leiðinni.

„Hlaupið gæti aldrei orðið að veruleika án þátttöku frábærra sjálfboðaliða, starfsfólks og samstarfsaðila sem styðja við bakið á okkur ár hvert” segir Ragna Björg.


Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna