Laugavegshlaupið fór fram í 28.sinn laugardaginn 12. júlí. Aðstæður voru góðar á leiðinni, ekki mikill vindur og það hlýnaði þegar nær dróg marki og höfðu hlauparar orð á því að það hefði verið heldur heitt á köflum en þó alls ekkert til að kvarta yfir.
Yfir 800 hlauparar lögðu af stað í Landamannalaugum kl.9 í morgun og lögðu leið sína yfir Laugarveginn og enduðu í Húsadal. Þar sem fjölmargir áhorfendur tóku vel á móti þeim.
Leikar fóru þannig að Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í kvennaflokki, fimmta árið í röð á tímanum 04:29:33. Hreint útsagt frábær árangur. Í öðru sæti í kvennaflokki var svo Elísa Kristinsdóttir á tímanum 04:34:54 og á eftir henni í þriðja sæti var Anna Berglind Pálmadóttir á tímanum 04:56:37.
Í karlaflokki sigraði Þorsteinn Roy Jóhannson annað árið í röð á tímanum 04:05:05, heldur betur frábær árangur hjá honum. Í öðru sæti var svo Þorbergur Ingi Jónsson á tímanum 04:10:37 og í þriðja sæti var svo Bretinn Andrew Douglas á tímanum 04:17:16.
Verðlaunafhending var svo klukkan 18 í Húsadal, en þar voru veitt verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í kvenna og karlaflokki, sem og aldursflokkaverðlaun.
Íþróttabandalag Reykjavíkur þakkar þátttakendum, starfsfólki, hinu frábæra teymi sem sá um beina útsendingu, sjálfboðaliðum, áhorfendum og öllum þeim sem komu að því halda þetta frábæra hlaup.
Takk fyrir okkur og sjáumst að ári liðnu.
Ljósmyndir: Bjarni Baldursson.
