Reykvísk ungmenni sigursæl á norðurlandamóti

Reykvíski hópurinn sem keppir á Grunnskólamóti höfuðborga Norðurlanda.

Grunnskólamót höfuðborga Norðurlanda hófst í Helsinki á mánudaginn og lýkur í dag fimmtudag. Fyrir hverja borg keppir 41 nemandi, 14 ára og yngri, í knattspyrnu drengja, handknattleik stúlkna og frjálsum íþróttum drengja og stúlkna. Reykvísku ungmennin hafa staðið sig einstaklega vel á mótinu í ár og verið sér og sínum til sóma innan vallar sem utan.

Lið Reykjavíkur vann mótið í knattspyrnu drengja. Þeir sigruðu lið Kaupmannahafnar 3-0, Osló 2-1, Stokkhólm 7-2 og Helsinki 12-0. Þetta er þriðja árið í röð sem lið Reykjavíkur sigrar í knattspyrnu drengja á þessu móti.

Í handknattleik stúlkna varð lið Reykjavíkur í öðru sæti. Þær sigruðu Helsinki 23-10, Stokkhólm 11-10 og Kaupmannahöfn 12-11 en biðu lægri hlut fyrir sigurvegurum mótsins liði Osló 11-25. Þetta er besti árangur sem Reykjavík hefur náð í handknattleik á þessu móti og mikil gleði hjá hópnum með niðurstöðuna.

Frjálsíþróttalið stúlkna varð í 3.sæti í stigakeppni mótsins og frjálsíþróttalið drengja í 5.sæti. Keppt var í 5 greinum frjálsíþrótta: 100 m hlaupi, kúluvarpi, hástökki, langstökki og 800 m hlaupi. Bestum árangri í liði Reykjavíkur náðu Signý Hjartardóttir sem sigraði í kúluvarpi og Kristján Viggó Sigfinnsson sem var í öðru sætinu í hástökki. Í eftirfarandi lista má finna heildarúrslit í öllum keppnisgreinum:

Hástökk Stúlkur Drengir

Kúluvarp Stúlkur Drengir

Langstökk Stúlkur Drengir

100 m hlaup Stúlkur Drengir

800 m hlaup Stúlkur Drengir

Grunnskólamót höfuðborga Norðurlanda hefur verið haldið árlega frá árinu 1948 fyrir utan eitt ár. Frá upphafi hafa höfuðborgirnar Kaupmannahöfn, Osló, Helsinki og Stokkhólmi tekið árlega þátt í mótinu en Reykjavík tók fyrst þátt í mótinu árið 2006. Reykjavík hefur tvisvar sinnum haldið mótið, árið 2011 og árið 2014. Í úrvalsliði Reykjavíkur sem tekur nú þátt í mótinu er 41 keppandi, fjórir þjálfarar og tveir fararstjórar. Keppendur í úrvalsliði Reykjavíkur eru 15 leikmenn í knattspyrnu drengja , 10 leikmenn í handknattleik stúlkna, 8 drengir og 8 stúlkur í frjálsum íþróttum.

Í kvöld verður lokaathöfn og verðlaunaafhending en á morgun er haldið heim á leið eftir góða viku í Helsinki.

Nánari upplýsingar:

Listi yfir þátttakendur Reykjavíkur
Dagskrá reykvíska hópsins
Saga mótsins
Myndir

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar
  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) eru heildarsamtök íþróttafélaganna í Reykjavík og voru stofnuð 31. ágúst 1944. ÍBR gætir hagsmuna íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík gagnvart opinberum aðilum og vinnur að eflingu og skipulagningu á íþróttastarfsemi í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með fimm stórum íþróttaviðburðum