Grunnskólamót Höfuðborga Norðurlandanna

Grunnskólamót höfuðborga Norðurlanda var haldið í fyrsta skipti árið 1948 í Stokkhólmi.

Um mótið

Grunnskólamót höfuðborga Norðurlanda var haldið í fyrsta skipti árið 1948 í Stokkhólmi. Frá upphafi hafa höfuðborgirnar Kaupmannahöfn, Osló, Helsinki og Stokkhólmi tekið árlega þátt í mótinu en Reykjavík tók fyrst þátt í mótinu árið 2006. Reykjavík hefur tvisvar sinnum haldið mótið, árið 2011 og árið 2014.

Markmið

Markmið mótsins er að sameina skólaungmenni á Norðurlöndum í gegnum íþróttir og rækta þannig norrænan frændskap. Fyrir utan íþróttakeppnina sjálfa er lögð áhersla á að ungmennin kynnist hvert öðru sem og sögu landsins sem heimsótt er og venjum þess.

Þátttaka Reykjavíkur

Reykjavík hafði verið boðið að taka þátt í mótinu í mörg ár en það var ekki fyrr en árið 2006 að Reykjavíkurborg ákvað að taka þátt. Þá fór mótið fram í Helsinki og voru Reykvíkingar þá með sem gestir í knattspyrnu drengja. Árið 2007 voru aftur sendir drengir í knattspyrnu og þá til Osló og enduðu þeir í 2. sæti.

Árið 2008 var mótið haldið í Kaupmannahöfn og var þá minnst 60 ára afmælis mótsins. Var þá ákveðið að Reykjavík sendi fullt lið til keppni og stóðu allir keppendur sig frábærlega og voru Reykjavík til sóma. Í Stokkhólmi árið 2009 sendi Reykjavík keppendur í körfuknattleik stúlkna og knattspyrnu drengja. Ári síðar þegar mótið fór fram í Helsinki keppti Reykvíska liðið í öllum íþróttagreinum mótsins og hefur það fyrirkomulag verið síðan.

Árið 2011 var mótið í fyrsta sinn haldið í Reykjavík dagana 22.-27. maí og tókst það vel þrátt fyrir eldgos og létta snjókomu. ÍBR var framkvæmdaraðili mótsins en Reykjavíkurborg var gestgjafinn. Það ár var í keppt í handknattleik stúlkna í fyrsta sinn í sögu mótsins.

Árið 2012 var keppt í Osló, 2013 í Kaupmannahöfn, 2014 í Reykjavík, 2015 í Stokkhólmi, 2016 í Helsinki, 2017 í Osló, 2018 í Kaupmannahöfn og 2019 í Stokkhólmi. Reykjavík sigraði í knattspyrnu drengja 2013-2017 og frjálsum íþróttum stúlkna árið 2014.

Þátttakendur

Fyrir hverja höfuðborg keppa 41 nemandi, 14 ára og yngri: 15 í knattspyrnu drengja, 10 í handknattleik stúlkna, 8 í frjálsum íþróttum stúlkna og 8 í frjálsum íþróttum drengja. Með hópnum fara með fjórir þjálfarar og tveir fararstjórar.

Íþróttakeppnin

Keppni fer fram í knattspyrnu, handknattleik og frjálsum íþróttum. Mikið er lagt uppúr því að öll keppnin geti farið fram á einum stað svo að auðvelt sé að fara á milli staða til að fylgjast með öllum greinum.

Keppt er í riðlum í boltagreinunum þannig að allir leika við alla. Í frjálsum íþróttum er keppt í fimmþraut (100 m, langstökk, hástökk, kúluvarp og 800 m). Sjö bestu úrslitin gilda og eru þau lögð saman fyrir hvert lið. Allir þátttakendur í grunnskólamóti höfuðborga Norðurlanda fá jafna viðurkenningu fyrir þátttökuna.

Hagur þátttakenda og Reykjavíkurborgar að taka þátt í mótinu

Hagur Reykjavíkur af mótinu er fjölþættur, helstu atriði eru:

 • hvatning til nemenda um að stunda íþróttir
 • hvatning til að standa sig vel í skólanum og koma vel fram því annars komast þau ekki í liðið
 • nemendur í Reykjavík kynnast frændþjóðum okkar á Norðurlöndum og læra um menningu þeirra og hefðir
 • nemendur sjá tilgang með því að læra Norðurlandamál
 • íþróttakennarar kynnast félögum sínum á Norðurlöndum og geta lært hverjir af öðrum.
 • kennarar/fararstjórar eru í sambandi árið um kring á tölvupósti vegna mótsins og leita þá oft aðstoðar og hugmynda í ýmsum málum
 • kynning fyrir Reykjavík
 • foreldrar og nemendur frá öðrum löndum geta verið væntanlegir ferðamenn

Andi mótsins

Þrátt fyrir að hart sé keppt inná vellinum er mjög vinalegur andi yfir mótinu. Mikið lagt uppúr félagslegum þáttum í dagskránni og að þátttakendur kynnist vel.

Reykvíska liðið með íslenska fánann á lofti í Kaupmannahöfn á Grunnskólamóti Höfuðborga Norðurlanda.

Næsta Grunnskólamót Höfuðborga Norðurlandanna átti að fara fram í Reykjavík 2020. Fresta þurfti mótinu í ár vegna COVID-19 faraldursins en ný dagsetning hefur ekki verið ákveðin.

Samstarfsaðilar

 • Merki ÍSÍ
 • Merki UMFÍ
 • Merki Reykjavíkurborgar
 • Merki ÍTR
 • Merki Íslenskrar Getspár
 • Merki Getrauna