ÍBR í samstarf með Siðferðisgáttinni

6. október 2021

ÍBR leggur mikla áherslu á fagleg vinnubrögð þegar koma upp ósætti eða óviðeigandi mál innan íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík. Því var það eðlilegt skref fyrir ÍBR að huga að starfsfólki sínu með því að hefja samstarf við Siðferðisgáttina.

 

“Við leggjum mikið upp úr góðri vinnustaðarmenningu og vildum skapa vettvang fyrir starfsmenn okkar að koma því á framfæri til óháðs þriðja aðila ef einhver verður fyrir óæskilegri framkomu á vinnustaðnum eða upplifi vanlíðan í tengslum við störf sín,” segir Frímann Ari Ferdinandsson framkvæmdastjóri ÍBR.

 

Siðferðisgáttin kemur inn sem óháður ráðgjafi ef ágreiningsmál koma upp innan fyrirtækja er varðar óæskilega framkomu eða ef starfsmenn upplifa vanlíðan á sínum vinnustað. Siðferðisgáttin styður við bakið á öflugu mannauðsstarfi fyrirtækja og stofnana með það að leiðarljósi að efla vellíðan á vinnustað.

 

„Það er okkur afar dýrmætt að fá Íþróttabandalag Reykjavíkur í þjónustu Siðferðisgáttarinnar þar sem um er að ræða fyrsta aðildarfélagið innan íþróttahreyfingarinnar. Markmið Siðferðisgáttarinnar er að styrkja stoðir góðrar vinnustaðarmenningar og að skapa farveg fyrir alla starfsmenn, óháð stöðu, til þess að koma á framfæri til óháðra aðila ef þeir verða fyrir óæskilegri hegðun. Með því að setja málin strax í faglegan farveg reynum við að bæði uppræta og koma í veg fyrir óæskilega háttsemi og vanlíðan á vinnustaðnum. Við hlökkum mikið til samstarfsins og erum afar þakklát að fá ÍBR í hóp ánægðra aðildarfélaga Siðferðisgáttarinnar, “ segir Stefanía Hildur Ásmundsdóttir, ráðgjafi hjá Siðferðisgáttinni.

 

Frekari upplýsingar um Siðferðisgáttina má finna hér, Siðferðisgátti.

 

Styrktaraðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna