Góð ferð til Svíþjóðar

24. maí 2019

Reykvíski hópurinn sem tók þátt í Grunnskólamóti Höfuðborga Norðurlandanna í vikunni er komin heim eftir góða ferð til Svíþjóðar. Hópurinn hélt af stað úr Laugardalnum á sunnudaginn og hefur verið í þéttri dagskrá síðan sem samanstóð af bæði keppni og skemmtun með jafnöldrum frá hinum Norðurlöndunum.

Knattspyrnulið drengja varð í öðru sæti á mótinu. Þeir sigruðu Osló 8-1, Kaupmannahöfn 6-0 og Helsinki 3-0 en töpuðu fyrir heimamönnum frá Stokkhólmi 3-1. Strákarnir voru óheppnir að skora ekki fleiri mörk í leiknum gegn Stokkhólmi því þeir fengu mörg færi en geta engu að síður verið stoltir af góðum árangri.

Handknattleikslið stúlkna varð í fimmta sæti á mótinu. Þær töpuðu fyrir Osló 25-17, Stokkhólmi 24-11 og Kaupmannahöfn 17-10. Lokaleikurinn gegn Helsinki var hnífjafn en endaði með 16-15 sigri Finnanna. Stelpurnar stóðu sig mjög vel á mótinu og héldu alltaf áfram að berjast af krafti þrátt fyrir erfiðar viðureignir gegn sterkari liðum.

Frjálsíþróttalið stúlkna varð í þriðja sæti og frjálsíþróttalið drengja varð í fjórða sæti í stigakeppni mótsins en keppt var í 800 m hlaupi, 100 m hlaupi, kúluvarpi, langstökki og hástökki. Efsta sæti Reykvíkinga í einstökum greinum náði María Helga Högnadóttir en hún var í 3.sæti í hástökki með stökk uppá 1,52 m.

Í mótslok var keppt í boðhlaupi og sigraði lið Reykjavíkur í 12x60m boðhlaupskeppni handknattleiks og knattspyrnuliða en frjálsíþróttaliðið var í 4.sæti í 4x200 m boðhlaupskeppni frjálsíþróttaliða.

Fararstjórar og þjálfarar þakka hópnum fyrir góða ferð. Krakkarnir stóðu sig virkilega vel innan vallar sem utan og voru sér og sínum til sóma.

Lista yfir lið Reykjavíkur má finna hér.

Reykvíski hópurinn rétt fyrir brottför úr Laugardalnum

Reykjavíkurúrvalið í knattspyrnu drengja 2019

Reykjavíkurúrvalið í handknattleik stúlkna 2019

Reykjavíkurúrvalið í frjálsíþróttum stúlkna 2019

Reykjavíkurúrvalið í frjálsíþróttum drengja 2019

Samstarfsaðilar

  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna