Metfjöldi keppnisgreina á RIG 2020

Keppt verður í 25 einstaklings,- og paraíþróttagreinum á þrettándu Reykjavíkurleikunum, sem fara fram dagana 23.janúar til 2.febrúar næstkomandi og er það fjölgun um 7 greinar frá síðustu leikum. Eins stefnir í metfjölda erlendra þátttakenda, en á leikunum í byrjun þessa árs komu 837 erlendir gestir af 45 ólíkum þjóðernum til að keppa við íslenska afreksfólkið.

Nýjar keppnisgreinar eru crossfit, pílukast, klifur, þríþraut, freestyle, parkour, trampólínstökk, enduro hjólakeppni og akstursíþróttir þar sem bæði verður keppt í hermum og í brautarakstri. Þær bætast við badminton, borðtennis, dans, frjálsíþróttir, brekkusprett á hjóli, júdó, karate, keilu, kraftlyftingar, listskauta, ólympískar lyftingar, rafíþróttir, skotfimi, skylmingar, skvass, sund og taekwondo sem voru á dagskrá síðustu leika. Þess má geta að fjölmargar íþróttagreinar hafa náð í vottun alþjóðasamtaka, nokkuð sem dregur að öfluga erlenda keppendur.

Nýmæli er m.a. að crossfit er í fyrsta skipti með á leikunum. Þó crossfit sé ný keppnisgrein hafa margir keppendur þar verið á meðal þátttakenda áður í ólympískum lyftingum og þekkja því til leikanna. Rafíþróttir, sem vöktu mikla athygli á síðustu leikum, verða áfram á dagskránni. Keppnisstaðir eru 14 talsins um alla Reykjavík og eins er keppt í einni grein í Hafnarfirði. 

Markmiðið Reykjavíkurleikanna er að fá til landsins öfluga erlenda keppendur og byggja þannig upp sterkan alþjóðlegan íþróttaviðburð fyrir íslenska afreksmenn á heimavelli. Allt frá stofnun leikanna hefur verið góður stígandi á öllum helstu árangursmælikvörðum. 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík: ,,Reykjavíkurleikarnir hafa fest sig í sessi sem alþjóðlegt mót þar sem teflt er fram besta íslenska íþróttafólkinu í hefðbundnum greinum gegn erlendum keppendum í svipuðum gæðaflokki. Þá er gaman að sjá að fjölmargar nýjar og spennandi íþróttir fá veglegt pláss á leikunum. Við hjá Reykjavíkurborg erum afar stolt af þessu framtaki og hlökkum mikið til að fylgjast með í byrjun næsta árs"

Alls verða 11 íþróttagreinar í beinni útsendingu á RÚV keppnishelgarnar tvær og samantektir og hliðarefni fléttað ínní dagskrána. Þá verður beint streymi á internetinu frá flestum öðrum greinum. Hilmar Björnsson íþróttastjóri RÚV: ,,Umfang umfjöllunar RÚV hefur vaxið gríðarmikið frá fyrstu leikunum árið 2008. Það er ánægjulegt að sjá hversu mikill kraftur er nú í undirbúningi fyrir Reykjavíkurleikana 2020 og því tilhlökkun í okkur á íþróttadeild RÚV að fjalla um þá ”

Íþróttabandalag Reykjavíkur, sem í nánu samstarfi við sérsambönd ÍSÍ, einstök íþróttafélög og Reykjavíkurborg, hefur frá árinu 2008 staðið að framkvæmd Reykjavíkurleika, sem er alþjóðlegt stórmót með þáttöku íslensks og erlends afreksfólks. Gríðarlegur fjöldi fólks kemur því að undirbúningi og skipulagingu leikanna. Fjölmargar nýjungar er að finna í dagskrá Reykjavíkurleikanna 2020, dagskrá þar sem allir íþróttaunendur ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Yfirlit yfir allar keppnisgreinar og keppnisdaga má finna hér á rig.is.

 

Auglýsingaborði fyrir Reykjavíkurleikana 2020

Deila þessari frétt
Samstarfsaðilar
  • Merki ÍSÍ
  • Merki UMFÍ
  • Merki Reykjavíkurborgar
  • Merki ÍTR
  • Merki Íslenskrar Getspár
  • Merki Getrauna

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) eru heildarsamtök íþróttafélaganna í Reykjavík og voru stofnuð 31. ágúst 1944. ÍBR gætir hagsmuna íþróttahreyfingarinnar í Reykjavík gagnvart opinberum aðilum og vinnur að eflingu og skipulagningu á íþróttastarfsemi í Reykjavík. Árlega hefur Íþróttabandalagið umsjón með fimm stórum íþróttaviðburðum